Efsti maður á lista Wiesenthal stofnunarinnar yfir eftirlýsta nasista, Sandor Kepiro,var í dag kærður fyrir stríðsglæpi.
Réttað verður yfir Kepiro, sem er 97 ára gamall, í Búdapest í Ungverjalandi. Hann er ákærður fyrir að hafa borið ábyrgð á aftöku fjögurra óbreyttra borgara í Novi Sad í Serbíu í janúar 1943, en hann var liðsforingi í hernum.
Hann er ennfremur talinn vera ábyrgur fyrir brottflutningi 30 manna, sem síðar voru teknir af lífi og að hafa drepið tvo til viðbótar.
Alls er hann talinn bera ábyrgð á dauða 36 manna.
Kepiro gengur laus fram að réttarhöldunum, en þeim verður flýtt eins og kostur er á.
Kepiro var sakfelldur fyrir stríðsglæpi árin 1944 og 1946 og var fundinn sekur í bæði skiptin. En hann sætti aldrei refsingu. Hann segist saklaus af ásökununum.
Hann var búsettur í Argentínu fram til ársins 1996, en þar hafði hann leynst frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann hefur búið í Ungverjalandi síðan þá.
Samtök gyðinga í Ungverjalandi fagna því að Kepiro verði dreginn fyrir dóm.
Nöfnum á lista Wiesenthal stofnunarinnar fer nú óðum fækkandi, en 66 ár eru liðin frá lokum heimstyrjaldarinnar síðari. Á listanum er þó annar Ungverji, Karoly Zentai að nafni, sem er talinn hafa átt þátt í morðum á gyðingum í Búdapest árið 1944.