Gríðarlegt fannfergi hefur valdið usla austurströnd Suður-Kóreu, en ekki hefur snjóað jafn mikið á svæðinu í heila öld. Þá hefur ofankoman valdið mikilli röskun og eyðileggingu. Mörg hundruð hús hafa hrunið af völdum snjóþungans.
Ríkisstjórn landsins hefur sent 12.000 hermenn til að aðstoða landsmenn sem hafa lent í vandræðum eða eru strandaglópar vegna veðurs. Á vef breska ríkisútvarpsins segir að dagblað í Suður-Kóreu hafi lýst veðrinu sem snjósprengju. Búist er við að tjónið muni hlaupa á mörgum milljónum dala.
Veðrið hefur verið verst í héraðinu Gangwon. Veðurfræðingar segja von á frekari snjókomu á næstu klukkustundum. Þá má geta þess að nýliðinn janúar mánuður var sá kaldasti í landinu frá því á sjöunda áratug síðustu aldar.
Park Chae-ran, sem er 83 ára gamall, segist ekki muna eftir öðru eins. Hann segist vera þakklátur fyrir að hermennirnir séu mættir til aðstoða fólk.