Hosni Mubarak, fyrrum Egyptalandsforseti, á hugsanlega við heilsufarsvandamál að stríða samkvæmt upplýsingum frá sendiráði Egyptalands í Bandaríkjunum.
Sameh Shoukry, sendiherra Egyptalands í Bandaríkjunum, segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um málið, en að ýmislegt benti til þess að heilsa Mubaraks væri ekki mjög góð.
Mubarak er 82 ára. Sterkur orðrómur var á kreiki um að hann hefði farið úr landi strax eftir að hann sagði af sér síðastliðinn föstudag, en svo mun ekki vera. Hann heldur til í egypskum strandbæ.
Heilsufar Mubaraks hefur verið tilefni mikilla vangaveltna í Egyptalandi undanfarin ár.
Ástandi hans hefur verið haldið leyndu af yfirvöldum og blaðamenn hafa verið fangelsaðir fyrir að hafa fjallað um það. Þó er vitað að í mars á síðasta ári fór hann í gallblöðruaðgerð í Þýskalandi og dvaldi að henni lokinni í þrjár vikur á sjúkrahúsi.