Yfirvöld í Jórdaníu hyggjast draga úr hömlum á funda- og samkomufrelsi í landinu, og leyfa þannig mótmæli án þess að sérstaklega sé sótt um leyfi til þeirra hjá ríkisstjórninni.
Innanríkisráðherra Jórdaníu, Saad Hayel Srur, fór þess á leit við ríkisstjórnina í gær að lög um fundafrelsi yrðu endurskoðuð og ákvæði um leyfisskyldu fellt úr gildi.
„Þess í stað þurfa skipuleggjendur að láta yfirvöld vita með tveggja sólarhringa fyrirvara,“ sagði Srar í samtali við ríkisfréttastofuna Petra. „Líklegt er að fallist verði á þetta og breytingin send þinginu til samþykktar.“
Alþjóðleg mannréttindasamtök, sem og hin íslamska stjórnarandstaða í landinu, hafa lengi barist fyrir því að lögunum yrði breytt. "Þetta er skref í rétta átt hvað pólitískar umbætur í Jórdaníu varðar," sagði þingmaðurinn halil Atiyeh í samtali við fréttastofu AFP.