Hinn aldni utanríkisráðherra Indlands, S.M. Krishna, gerði þau vandræðalegu mistök að lesa fyrstu þrjár mínútur af ræðu portúgalsks kollega síns í ræðustól, án þess að verða þess var. Aðstoðarmaður hans þurfti að stökkva til og bjarga því sem bjargað varð.
Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir hinn 78 ára gamla Krishna, en sjálfur hefur hann gert lítið úr uppákomunni sem varð á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum í síðustu viku.
„Persónulega kýs ég fagna þeirri skemmtilegu tilviljun að fulltrúar tveggja portúgölskumælandi landa, Brasilíu og Portúgals, eru viðstaddir,“ sagði Krishan þegar mistökin urðu ljós.
Hann hefur síðan sagt að „ekkert hafi verið að þessu.“
„Það voru svo mörg blöð á borðinu fyrir framan mig að fyrir mistök tók ég fram ranga ræðu,“ sagði hann. „Þannig var þetta, því miður.“
Indverska dagblaðið Hindustan Times stríddi Krishna með því að tengja mistökin við þá staðreynd að Portúgalir hafi eitt sinn verið nýlenduherrar yfir hluta Indlands.
„Ef við ætlum að velta okkur upp úr nýlendutímanum er margt sem við getum þakkað Portúgölum fyrir. Það minnsta sem við getum gert er að lesa upp úr ræðunum þeirra af og til,“ sagði í blaðinu.