Íraskur liðhlaupi sem sannfærði bandarísk stjórnvöld um að Saddam Hussien byggi yfir efnavopnum hefur nú viðurkennt að hafa logið í þeim tilgangi að koma einræðisherranum frá völdum.
Rafid Ahmed Alwan al-Janabi, sem gekk undir dulnefninu „Curveball“ hjá bandarískum og þýskum leyniþjónustumönnum, viðurkenndi að hafa búa til sögur um trukka með efnavopnum og leynilegar verksmiðjur í einkaviðtali við breska blaðið The Guardian. Flúði hann landið árið 1995.
„Kannski hafði ég á réttu að standa, kannski ekki. Þeir gáfu mér þetta tækifæri. Ég hafði möguleikann á að spinna eitthvað til þess að koma stjórnvöldum frá. Ég og synir mínir erum stoltir af því og við erum stoltir af því að við vorum ástæðan fyrir að Írökum var gefið færi á lýðræði,“ segir al-Janabi.
Játning al-Janabi kemur rúmlega átta árum eftir ræði Colin Powells þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum en þar studdist hann mikið við lygarnar sem al-Janabi hafði sagt þýsku leyniþjónustunni BND.
Nýlega viðurkenndi Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að Írakar hafi ekki haft neina gereyðingarvopnaáætlun.
Frétt The Guardian um mál al-Janabi.