Talið er að tæplega 1.000 börn hafi veikst af matareitrun í níu grunnskólum á japönsku eyjunni Hokkaido. Þá hafa 48 kennarar og annað starfsfólk skólanna fengið einkenni matareitrunar. Þrettán börn liggja nú á sjúkrahúsi í borginni Iwamizawa, en enginn er í lífshættu.
Skólunum hefur verið lokað og verða þeir lokaðir út þessa viku. Alls veiktust 953 börn. Grunur leikur á salmonellusmiti en rannsókn stendur nú yfir segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Ástæða þess að svo margir veiktust er sú að í Iwamizawa er starfrækt stórt eldhús sem eldar mat sem er svo dreift í mörg skólamötuneyti daglega, en þetta er mjög algengt fyrirkomulag í Japan. Búið er að loka þremur eldhúsum á meðan rannsókn stendur yfir.
Börnin fóru að veikjast í síðustu viku eftir að hafa borðað súpu, salat og japanskar radísur í kjöthakki.