Írakar verða í vandræðum eftir að Bandaríkjamenn draga herlið sitt til baka þaðan seinni hluta næsta árs. Þetta er mat Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir að brotthvarfið standi enn til nema að herinn verði beðinn um að vera áfram.
„Sannleikurinn er sá að Írakar eiga eftir að standa í vandræðum sem þeir munu þurfa að bregðast við ef við verðum ekki þar með einhvern fjölda liðs,“ sagði Gates við varnarmálanefnd Bandaríkjaþings.
Sagði hann Íraka ekki verða færa um að verja eigin lofthelgi og muni lenda í vandræðum með skipulagningu og viðhald.
„En þetta er þeirra land. Þetta er fullvalda ríki og við verðum að standa við samkomulagið nema að Írakarnir biðji okkur um að hafa fleiri menn þar.“
Bandaríski sendiherrann í Bagdad og háttsettur yfirmaður hersins í Írak, Lloyd Austin, tjáðu þinginu í byrjun mánaðar að þeir væru vissir um stöðugleika í Írak eftir brottför bandaríska hersins.
Sögðu þeir ekkert benda til þess að Írakar vilji að Bandaríkjamenn haldi eftir herliði í landinu eftir þá dagsetningu sem miðað er við fyrir brottför hersins.