Forfeður Breta lögðu mannakjöt sér til munns og notuðu hauskúpur sem matarílát. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar fornleifafræðinga en hún byggir á greiningu á 15.000 ára gömlum mannabeinum.
Beinin fundust í Gough-helli við bæinn Cheddar Gorge í Somersetsýslu og höfðu höfuðkúpurnar sem fundust verið hreinsaðar af öllum líkamsvefjum.
Þá var búið að brjóta af efrihluta kúpanna, þ.e. kjálkabein, svo þær væru eins og skálar þegar þeim var snúið á hvolf.
Bresku frummennirnir höfðu fá verkfæri en virðast hafa fínpússað brúnina á höfuðkúpunum til að þær færu betur í hendi.
„Talið er að kúpurnar hafi verið notaðar við trúarathafnir eða til að geyma blóð, vín eða annan mat á meðan á slíkum athöfnum stóð,“ segir fornleifafræðingurinn Chris Stringer um notkunargildi hauskúpna.
Þá þykir líklegt að mannát hafi verið stundað í hallærum þegar engan annan mat var að finna.
Í gömlum ritum eru til lýsingar af því þegar vín var drukkið úr hauskúpum óvina, athafnir sem gríski sagnfræðingur Heródótus lýsti í skrifum sínum.