Segir að Berlusconi hafi vitað hversu gömul hún væri

Karima El Mahroug sem kallar sig Ruby.
Karima El Mahroug sem kallar sig Ruby. STRINGER BEIJING

Karima El Mahroug, sem er miðpunktur réttarhalda yfir Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, fullyrðir að Berlusconi hafi verið kunnugt um aldur hennar. Berlusconi er sakaður um að hafa haft mök við stúlkuna þegar hún var 17 ára. Þau neita bæði að hafa stundað kynlíf.

Berlusconi er ásakaður um að hafa stundað kynlíf með stúlku undir lögaldri og fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína, en hann hafði samband við lögreglu þegar Karima El Mahroug, sem kölluð er Ruby, var handtekin fyrir þjófnað.  Berlusconi segist hafa haft samband við lögreglu vegna þess að hann hafi talið að hún væri barnbarn Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands. Ruby segir að það hafi verið hans hugmynd að hún segðist vera afkomandi Mubaraks.

Skýrsla var tekin af Ruby í ágúst á síðasta ári. Sky-fréttastofan segir frá efni hennar. Hún segir að Berlusconi hafi boðið henni í samkvæmi á Valentínusardag á síðasta ári og þá hafi hann gefið henni 50 þúsund evrur. Hún segir að hann hafi síðan leitt hana inn í herbergi þar sem hann hafi sagt að hann gæti breytt lífi hennar. Hún segir að hann hafi ekki nefnt kynlíf beinum orðum, en það hafi verið það sem hann var að ýja að.

Ruby segir að hún hafi sagt Berlusconi að hún væri 24 ára gömul og frá Egyptalandi. Hún segist síðar hafa talað við aðrar stúlkur sem voru í samkvæminu og þær hafi sagt henni að Berlusconi biði þeim að gista ókeypis í íbúðum í útjaðri Milanó og að hún mætti flytja þangað inn.

Ruby segir að eftir að hún flutti inn í íbúðina hafi hún ákveðið að upplýsa Berlusconi um aldur sinn og að hún væri ekki frá Egyptalandi og að hún hefði engin skilríki, en það þýðir að hún var ólögleg í landinu. Ruby segir að Berlusconi hafi stungið upp á því að hún segði að hún væri barnabarn Mubaraks. Með þeim hætti gæti hún réttlætt þær ráðstafanir sem hann gripi til vegna hennar. Þegar Ruby var handtekin fyrir þjófnað vísaði Berlusconi einmitt til þess að hún væri barnabarn Mubaraks þegar hann hafði samband við lögreglu.


Skýrslur saksóknari í málinu gegn Berlusconi eru á 782 blaðsíðum. Berlusconi hefur vísað ásökunum á bug og segir að málareksturinn sé gróf árás á einkalíf sitt.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert