Háttsettir stjórnendur í íranska byltingarverðinum hafa skrifað yfirmanni sínum bréf þar sem þeir krefjast trygginga fyrir því að ekki verði farið fram á við þá að þeir skjóti á mótmælendur andsnúna ríkisstjórn landsins.
Í kjölfar ofbeldis sem blossaði upp í mótmælum gegn stjórnvöldum í Egyptalandi halda foringjar því fram að ofbeldi gegn eigin þjóð samræmist ekki íslömskum lögum sjíta.
Þykir þetta benda til meiriháttar klofnings hjá valdaelítu íslamska lýðveldisins yfir hvernig tekið hefur verið á mótmælum gegn ríkisstjórninni. Hefur bréfinu verið dreift meðal byltingarvarðarins.
Bréfið sem breska blaðið Daily Telegraph hefur undir höndum er stílað á hershöfðingjann Mohammad Ali Jafari sem er hæstráðandi í byltingarverðinum. Þar er þess krafist af honum að hann útdeili vinnureglum bæði til byltingarvarðarins og Basij-hersveitanna sem fylgja honum að málum um að sýna stillingu í meðhöndlun sinni á mótmælendum.
Í mótmælum með blossuðu upp árið 2009 í kringum umdeildar kosningar þar sem Mahmoud Ahmadinejad var endurkjörinn forseti reiddi ríkisstjórnin sig mikið á Basij-hersveitirnar til þess að bæla niður mótmælin þar sem þau óttuðust að geta ekki treyst öllum sveitum byltingarvarðarins.