Bandaríkjamenn beittu í dag neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir að það ályktaði gegn frekari landnemabyggðum Ísraela. Þetta er í fyrsta skipti sem neitunarvaldinu er beitt eftir að Barack Obama tók við sem forseti.
Fulltrúi Palestínumanna lét hafa eftir sér að þeir myndu endurskoða allt samningaferli friðarviðræðna eftir niðurstöðuna í öryggisráðinu.
Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna við SÞ, sagði í dag að ríkisstjórn sín hefði því miður ákveðið að taka stöðu gegn ályktuninni sem um 130 ríki studdu auk palestínskra stjórnvalda.
„Ályktunin eykur hættuna á að báðir aðilar herðist í afstöðu sinni. Hún myndi verða til þess að þeir héldu sig frá samningaumleitunum,“ sagði Rice.
Lagði hún áherslu á að neitun Bandaríkjamanna ætti ekki að túlka sem stuðning við landnemabyggðirnar og að bandarísk stjórnvöld hafni sterklega lögmæti áframhaldandi uppbyggingar þeirra.
Sameinuðu þjóðirnar væru hins vegar ekki rétti vettvangurinn til að reyna að leysa hin áratuga löngu átök Ísraels- og Palestínumanna.
Fyrr í dag bárust fréttir af því að Obama hafi varað Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, við því að styðja ályktunina því það hefði slæm áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Palestínu og hefði afleiðingar í för með sér.