Straumurinn liggur í norður

Goðafoss á strandstað í morgun.
Goðafoss á strandstað í morgun. Reuters

„Það eru nokkrar þyrlur í loftinu að kanna aðstæður. Straumurinn liggur í norður og það er því útlit fyrir að olían berist með þeirri átt,“ segir Nina Jensen, sjávarlífræðingur og fagstjóri hjá Noregsdeild alþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna WWF. Hún var við strandstað Goðafoss fyrir stundu.

Jensen gaf mbl.is kost á stuttu viðtali þar sem hún var  að kynna sér svæðið en hún segir viðkvæm kóralrif og einstakar fuglategundir í nágrenni strandsvæðisins í Óslófirði. 

„Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég hef miklar áhyggjur. Þetta sýnir að slys geta orðið hvenær sem er, jafnvel þegar aðstæður eru góðar. Nú er varla gára á hafinu og því mætti ætla að hægt væri að hreinsa upp alla olíuna. Við höfum hins vegar horft fram á olíuna leka úr skipinu. Þá ber að nefna að þetta er aðeins flutningaskip. Risavaxin olíuskip fara um svæðið á næstum því hverjum degi. Ef olíuskip lenti í árekstri kæmi upp staða sem við myndum alls ekki ráða við.“

Aðspurð hvort hún sé bjartsýn um að takast muni að hreinsa upp alla olíuna segir Jensen að á þessari stundu sé útlitið ekki gott. Olían hafi þegar lekið langt út í fjörðinn. Hún bindi vonir við að takast muni að hefta frekari leka frá Goðafossi og að sú olía sem náð hafi til nálægra eyja sé í óverulegu magni.

„Samkvæmt heimildum okkar hafa 375.000 lítrar af olíu lekið í hafið. Olían hefur þegar borist til eyjarinnar Aker en þar er að finna mikið fuglalíf, þar með talið tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Við höfum áhyggjur af því að olían kunni að berast lengra í norður og ná til annarra verndarsvæða,“ segir Jensen.

Myndband af strandstað

Nina Jensen
Nina Jensen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka