Herinn í Egyptalandi er umsvifamikill í hagkerfi landsins og kemur að ýmisskonar atvinnustarfsemi sem er undanþegin skatti. Hafa yfirmenn hersins því takmarkaðan áhuga á að opna hagkerfi landsins samfara þeim breytingum sem stefnir í að verði á stjórnkerfinu eftir að Mubarak fór frá völdum.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu á vef New York Times en þar segir að herinn starfræki dagheimili og strandhótel, auk þess að koma að framleiðslu sjónvarpa, jeppa, þvottavéla, húsgagna og ólífuolíu, svo eitthvað sé nefnt.
Segir á vef blaðsins að herinn greiði enga skatta af þessari starfsemi, njóti góðs af vinnuafli sem gegni herskyldu og geti keypt ríkisjarðir á hagstæðu verði, án þess að þurfa að veita þinginu eða almenningi upplýsingar um umsvif sín.
Er haft eftir Robert Springborg, sérfræðingi í málefnum egypska hersins við Naval Postgraduate School, að herinn hafi ekki í hyggju að breyta þessu.
Þvert á móti muni herinn leggjast gegn því að hulunni verði svipt af umsvifum hans í efnahagslífinu.