Palestínumenn leita til allsherjarþings SÞ

Frá Allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna.
Frá Allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna. MIKE SEGAR

Palestínumenn ætla að reyna að fá allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til að fordæma landnemabyggðir Ísraelsmanna eftir að Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að öryggisráðið samþykkti ályktun þess efnis í gær.

Allsherjarþingið kemur saman í New York í september en að sögn aðalritara PLO hyggjast leiðtogar Palestínumanna reyna að ná fram ályktun gegn landsnemabyggðunum þar.

„Ákvörðun okkar nú er að fá allsherjarþingið til að samþykkja ályktun gegn landnemabyggðunum, fordæma þær og lýsa þær ólöglegar. Þá munum við vísa þeirri ályktun til öryggisráðsins,“ sagði Yasser Abed Rabbo, leiðtogi PLO.

Bandaríkin beittu í fyrsta skipti neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu í gær eftir að Barack Obama tók við sem forseti til þess að koma í veg fyrir að samþykkt væri ályktun gegn Ísraelsmönnum. Öll hin 14 ríkin sem sæti eiga í ráðinu kusu með ályktuninni.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, sagði að atkvæðagreiðslan hefði engu að síður verið sigur fyrir erindisrekstur Palestínumanna. „Leiðtogar Palestínumanna máttu þola mikinn þrýsting í tvo daga í röð,“ sagði Abbas og bætti við að þeir væru ákveðnir í því að verja hagsmuni sína og lögmæt réttindi.

Egyptar hafa lýst því yfir að trúverðugleiki stjórnvalda í Washington sem málamiðlara í friðarviðræðum hafi beðið hnekki með framferði þeirra við atkvæðagreiðsluna í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka