Netsamband var rofið í Líbýu í nótt en þarlend stjórnvöld virðast reyna að koma í veg fyrir að mótmælendur noti netið til að skipuleggja aðgerðir og eiga samskipti. Talið er að tugir mótmælenda hafi látið lífið.
Orðrómur er um að synir Múammars Gaddafi, leiðtoga Líbýu, hafi flúið land. Þá hafði arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera í gærkvöldi eftir sjónarvottum, að öryggissveitir stjórnvalda hefðu lagt á flótta undan mótmælendum í strandbæjunum Derna og Benghazi.
Bandaríska stofnunin Arbor Networks, sem fylgist með netumferð, segir að lokað hafi verið fyrir netið í Líbýu klukkan 00:15 í nótt að íslenskum tíma. Netsamband hafi raunar verið afar stopult í gær.
Stjórn Gaddafis hét því í gær að stöðva allar tilraunir til að koma leiðtoga landsins frá. Stjórnarandastaðan boðaði í gær til „dags reiði". Að sögn AFP fréttastofunnar hefur að minnsta kosti 41 látið lífið í átökum við öryggissveitir frá því mótmæli hófust á þriðjudag. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch áætla hins vegar að 84 hafi látist.
Mótmælendur krefjast þess að Gaddafi, sem hefur ríkt í Líbýu í 42 ár, fari frá völdum. Lögregla hefur beitt skotvopnum gegn mótmælendum.