Læknir á sjúkrahúsi í borginni Benghazi í Líbýu segir, að öryggissveitir Múammars Gaddafis, einræðisherra landsins, hafi drepið yfir 200 manns í borginni síðustu daga. Fullyrt er að skotið hafi verið á líkfylgd í borginni í morgun.
Sjónarvottar sögðu við AP fréttastofuna að hópar sérsveitarmanna, erlendra málaliða og manna sem eru hliðhollir Gaddafi, hafi ráðist á mótmælendur í Benghazi í gær vopnaðir hnífum, rifflum og hríðskotabyssum. Verið var að bera 35 manns til grafar, sem létu lífið á föstudag í átökum við öryggissveitir.
Þá hefur AP fréttastofan í dag eftir sjónarvottum, að skotið hafi verið á líkfylgd í borginni í morgun þegar verið var að bera til grafar mann sem lét lífið í gær. Segir sjónarvotturinn að skot hafi lent í fæti mann, sem var að bera kistu fram hjá byggingu þar sem öryggissveitir hafast við.
Sagði maðurinn að öryggisveitirnar hafi fyrst skotið upp í loftið þegar líkfylgdin fór framhjá en síðan skotið á fólkið.
Læknirinn, sem AP fréttastofan ræddi við, sagði, að enginn búnaður sé lengur til staðar á sjúkrahúsi hans, sem er annað af tveimur sjúkrahúsum í borginni. Því sé ekki hægt að taka við fleiri særðum.
„Ég græt," sagði læknirinn. „Hvers vegna hlustar umheimurinn ekki?"
Læknirinn vildi ekki koma fram undir nafni að ótta við refsingu.