Omar al-Bashir, forseti Súdans, mun ekki sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum sem eiga að fara fram í landinu eftir fjögur ár. Þetta segir Rabie Abdelati, sem er hátt settur félagi í stjórnarflokknum NCP.
Abdelati segir að þetta sé liður í því að koma á lýðræðisumbótum í landinu.
„Ég get staðfest með 100% vissu að Bashir mun ekki bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum. Hann mun gefa öðrum einstaklingum tækifæri til að berjast um embættið,“ sagði Abdelati í samtali við AFP-fréttastofuna.
Bashir, sem er 67 ára gamall, tók við stjórnartaumunum í kjölfar valdaráns árið 1989. Hann hefur sjálfur ekki tjáð sig um framtíð sína á forsetastóli.
Abdelati segir að Bashir sé ekki undir þrýstingi og tengist ekki þeim atburðum sem séu að eiga sér stað í Arabaríkjum. Ákvörðun Bashirs megi rekja til þeirra breytinga sem NCP hafi unnið að, en Abdelati segir að það sé stefna flokksins að fá fleiri til að taka þátt og bjóða sig fram.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur ákært Bashir fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð í Darfur. Bashir neitar þessum ásökunum.