Bandaríska sendiráðið í Peking, höfuðborg Kína, segir að gríðarleg mengun sé í borginni og hún sé meiri en mengunarmælar geti numið. Kínverskir embættismenn hvetja borgarbúa til að halda sig innandyra.
Talsmaður sendiráðsins segir að mengunin mælist vera hættuleg heilsu manna. Þá sé það mögulegt að mengunin hafi sprengt skalann sem þýði að hún sé mun meiri heldur en mælitæki geti sagt til um.
Umhverfisstofnunin í Peking segir að fimmta stigs loftgæði mælist nú í borginni. Það er efsta stigið yfir mikla loftmengun.
„Það segir sig sjálft að eldri borgarar og börn eiga að halda sig innandyra,“ segir embættismaður hjá stofnunninni, sem vill ekki láta nafn síns getið, í samtali við AFP-fréttastofuna.
Agnir frá brunahreyflum, hækkandi hiti og logn veldur því að mikil mengun er nú í Peking. Víða er skyggni aðeins um 200 metrar að sögn veðurstofunnar í borginni.
Alþjóðlegar stofnanir, m.a. Sameinuðu þjóðirnar, hafa ítrekað bent á að sú mengun sem geti orðið í Peking sé á meðal þess verst gerist í heiminum.