Eldur er sagður loga í stjórnarbyggingum í Líbýu en mótmælendur og öryggissveitir börðust í miðborg höfuðborgarinnar Tripoli í nótt. Mótmælendur réðust inn í skrifstofur ríkissjónvarps Líbýu.
Sjónarvottar sögðu AFP fréttastofunni, að skrifstofur Þjóðarnefndarinnar, sem er ein helsta valdastofnun stjórnvalda í Líbýu, stæðu í ljósum logum.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch sögðu í morgun, að 233 manns hið minnsta hefðu látið lífið í átökum í Líbýu á undanförnum dögum.
Evrópusambandið sagðist í morgun vera að skoða leiðir til að flytja ríkisborgara aðildarríkja sinna frá Líbýu.