Óttast að 200 séu fastir í rústum

Konu bjargað úr húsarústum í Christchurch.
Konu bjargað úr húsarústum í Christchurch.

Óttast er að allt að 200 manns séu fastir í rústum húsa, sem hrundu í jarðskjálftanum í Christchurch, næststærstu borg Nýja-Sjálands, í nótt. Að minnsta kosti 65 manns létu líifð í skjálftanum.

Bob Parker, borgarstjóri Christchurch, segir líklegt að 150 til 200 manns hafi grafist undir rústum húsa. Um 350 þúsund manns búa í borginni. 

Skjálftinn reið yfir klukkan 12:51 að nýsjálenskum tíma. Þá voru margir á gangi á götum borgarinnar í hádegishléi. John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði að þetta hefði verið mikið áfall og margir borgarbúar sætu yfirbugaðir á vegarbrúnum. Mikið tjón varð á húsum í miðborginni. Turninn hrundi meðal annars af dómkirkjunni og sex hæða bygging þar sem sjónvarpsstöð var til húsa, er rústir einar.  

Fólki var bjargað með þyrlum af húsþökum og notaðir eru kranar til að fjarlægja hrunda húsveggi svo komast megi að fólki sem þar er grafið undir. 

Skjálftinn í morgun átti upptök sín um 5 km frá borginni á um 4 km dýpi. Tveir öflugir eftirskjálftar, 5,6 stig og 5,5 stig, riðu yfir um 2 stundum síðar. Búast má við fleiri eftirskjálftum.  

Í september varð jarðskjálfti sem mældist 7,1 stig nálægt borginni. Upptökin voru hins vegar um 40 km vestur af borginni og  og á meira dýpi. Talsverðar skemmdir urðu þá á mannvirkjum í miðborg Christchurch en engan sakaði.  

Að sögn sjónvarpsstöðva fundust lík í rústum farfuglaheimilis og bókaverslunar. Þá hafi ferðamaður látið lífið. Rafmagn fór víða af í borginni, farsímakerfi virkuðu ekki og miklar truflanir urðu á samgöngum en stórar rifur mynduðust víða á vegum. 

Óttaslegnir íbúar í Christchurch.
Óttaslegnir íbúar í Christchurch. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert