Einn af hverjum sex í Evrópu býr þröngt

Eflaust dreymir marga um að eiga heima í glæsihýsi þar …
Eflaust dreymir marga um að eiga heima í glæsihýsi þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Að ekki sé minnst á sturtu- og salernisaðstöðu. Reuters

Samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, kemur í ljós að einn af hverjum sex Evrópubúum býr mjög þröngt. Þá segir að víða í gömlu kommúnistaríkjunum sé hvorki að finna klósett né sturtuaðstöðu á heimilum.

Fram kemur að aðstæður í ESB-ríkjunum séu mismunandi. Á Kýpur búi um 1% landsmanna mjög þröngt miðað við 3,7% á Írlandi, 7,2% í Bretlandi og 23,3% á Ítalíu.

Einstaklingur er talinn búa þröngt séu herbergi færri en nemur fjölda einstaklinga á heimilinu, nema um sé að ræða pör. 

Þá miðar ESB við að börn, sem eru 12 ára eða eldri, eigi að hafa sitt eigið herbergi til afnota. Hins vegar geti yngri börn af sama kyni deilt herbergi. 

Hlutfallið er hæst í ríkjum sem voru eitt sinn undir stjórn kommúnista. Í Búlgaríu býr um 47% landsmanna mjög þröngt, 55,3% í Rúmeníu og 57,7% í Lettlandi. Tölur Eurostat eru frá árinu 2009.

Á heildina litið býr 16% íbúa í ESB í lélegum húsum sem leka eða eru með rakaskemmdum í veggjum, gólfum eða ónýtum gluggum.

Þá er hreinlætisaðstaða mjög mismunandi eftir löndum.

Um 43% Rúmena búa á heimilum þar sem engin salerni eru innandyra þar sem hægt er að sturta niður. Í Búlgaríu er hlutfallið 26% og 17% í Litháen. 

Í 15 öðrum ESB-ríkjum mælist hlutfallið aðeins vera um 1%.

Fjórir af hverjum tíu íbúum í Rúmeníu búa á heimilum þar sem hvorki er að finna bað né sturtu. Í Lettlandi er hlutfallið 18% og 16% í Litháen og Búlgaríu. Í 17 ESB-ríkjum mælist hlutfallið aðeins vera tæpt 1%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert