Um fjörutíu prósent íbúða í Dubai standa auðar, að því kemur fram í grein viðskiptablaðsins Arabian business. Og eins og það sé ekki nógu hátt hlutfall fyrir bendir blaðið á að stjórnvöld í Dubai séu ekkert að hægja ferðina í framkvæmdum.
Til samanburðar má nefna að í iðnaðarborginni Detroit í Bandaríkjunum, sem kölluð er draugabær í dag, standa 28% íbúða auðar. Þar dettur engum til hugar að bæta við íbúðum. En í Dubai verða tilbúnar til sölu allt að 48 þúsund íbúðir á næstu tveimur árum, er það um 12% aukning á framboði.
Á sama tíma hefur húsnæðisverð í Dubai fallið um 60% frá því harðna fór á dalnum hjá furstadæminu. Þar sem þegar er offramboð á eignum og fleiri bætast við markaðinn er talið að húsnæðisverð muni enn lækka um tíu til fimmtán prósent á næstu átján mánuðum.
Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða, að fermetraverð á skrifstofuhúsnæði var fjórða hæsta í heiminum á síðasta ári. Á þessu ári kemst það ekki inn á lista Cushman & Wakefield, enda hafi verð fallið um þrjátíu prósent.