Gaddafi mun deyja eins og Hitler

Adolf Hitler.
Adolf Hitler.

Einn fyrrverandi ráðherra Muammars Gaddafis, forseta Líbíu, spáir því að einræðisherrann muni frekar feta í fótspor Adolfs Hitlers og fremja sjálfsmorð en að gefa völd sín upp á bátinn.

Fyrrverandi dómsmálaráðherrann Mustapha Abdeljalil sem hætti vegna blóðidrifinna viðbragða Gaddafis við mótmælunum segir að hann trúi forsetanum til þess að standa við heit sitt um að deyja á líbískri grundu frekar en að fara í útlegð.

„Tími Gaddafis er á þrotum. Hann mun deyja eins og Hitler, hann mun fremja sjálfsmorð,“ segir Abdeljalil.

Adolf Hitler framdi sjálfsmorð í loftvarnarbyrgi sínu í Berlín í apríl 1945 þegar endanlegt fall veldis hans var yfirvofandi.

Dómsmálaráðherrann fyrrverandi hélt því einnig fram að hefði sannanir til að sýna fram á að Gaddafi hafi persónulega fyrirskipað að Lockerbie-flugvélinni yrði grandað með sprengju árið 1988 en 270 farþegar fórust í árásinni.

Þá staðfesti fyrrverandi ráðherrann að Gaddafi hefði ráðið málaliða frá öðrum löndum Afríku sem vitni segja að hafi farið fremstir í flokki til að berja niður mótmælin.

„Ég vissi að stjórnvöld hefðu málaliða fyrir uppreisnina. Ríkisstjórnin ákvað á nokkrum fundum að veita málaliðum frá Tsjad og Níger ríkisborgararétt. Ég mótmælti því og það er skjalfest,“ segir Abdeljalil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert