Tvítugur maður frá Sádi-Arabíu, búsettur í Texas í Bandaríkjunum, hefur verið handtekinn vegna gruns um að hann ætlaði að búa til gereyðingarvopn.
Khalid Ali-M Aldawsari var handtekinn í gær, en hann er grunaður um að hafa ætlað að sprengja tiltekin skotmörk, m.a. heimili George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í Dallas. Aldawsari mun koma fyrir dómara á morgun.
Lögregla fékk ábendingu um að maðurinn væri hættulegur eftir að hann pantaði hættuleg efni. Saksóknari segir að hann hafi falið sprengjur í dúkkum og í bakpoka.
Aldawsari hefur dvalið í Bandaríkjunum í tvö ár sem námsmaður. Hann mun hafa gefið þá skýringu að hann hafi pantað þessi tilteknu efni vegna þess að hann væri að vinna að efnafræðitilraunum.