Útlendingar, sem flúið hafa frá Líbíu undanfarna daga, segja ástandið í landinu hræðilegt. Bresk kona, sem kom í dag með flugvél frá Líbíu til Bretlands, sagði að Líbía væri að breytast í helvíti á jörðu.
Alger ringulreið ríkti á alþjóðaflugvellinum í Tripoli, höfuðborg Líbíu, í dag þegar útlendingar reyndu að komast til síns heima. Mörg lönd hafa sent flugvélar eftir fólki. Þá hafa yfir 20 þúsund manns farið á undanförnum dögum yfir landamæri Líbíu og Túnis.
„Líbía er að breytast í helvíti," sagði Helena Sheehan, sem kom til Gatwick-flugvallar í Lundúnum í dag með leiguflugvél, sem bresk stjórnvöld sendu til Líbíu.
„Ástandið á flugvellinum er ólýsanlegt. Það er alger ringulreið. Fólk er þar þúsundum saman að reyna að komast á brott."
Aðrir sögðu frá vopnuðum mönnum, sem standa á gatnamótum og fara inn í rútur í leit að málaliðum.
Ítalar hafa varað við því, að allt að 1,5 milljónir manna muni reyna að flýja frá Líbíu.
Egyptar, sem flúðu frá Líbíu, sögðust hafa sætt misþyrmingum eftir að sonur Múammars Gaddafis, einræðisherra, sakaði Egypta um að standa á bak við uppreisnina gegn stjórnvöldum.
Einn sagði, að stjórnvöld í Líbíu hefði reynt að fá þá til að aðstoða við að berja uppreisnina niður. „Þegar við neituðum vorum við barðir og pyntaðir," sagði hann.