Verja 75 billjónum til endurnýjunar heraflans

Rússneskir hermenn.
Rússneskir hermenn. Reuters

Rússnesk stjórnvöld hyggjast verja um 19 billjónum rúblna, sem samsvarar um 75 billjónum íslenskra króna, til endurnýjunar á herafla sínum til ársins 2020. Herinn mun m.a. fjárfesta í átta kjarnorkukafbátum, 600 herþotum og 1.000 þyrlum.

Þá segir á vef breska ríkisútvarpsins að Rússar hyggist kaupa 100 herskip.

Sérfræðingar segja nauðsynlegt að herinn geri breytingar á þjálfunar- og innritunarkerfi sínu eigi þessar miklu breytingar að ganga upp. 

Rússnesk stjórnvöld hafa skorið niður í herafla sínum að undanförnu. AP-fréttastofan segir að um 200.000 hermenn muni missa vinnuna og að níu af hverjum tíu hersveitum muni verða leystar upp. 

Einnig kemur fram á vef BBC að kafbátarnir muni verða vopnaðir Bulava-eldflaugum, þrátt fyrir að óhöpp hafi orðið við tilraunaskot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert