Malcolm Walker, forstjóri bresku matvörukeðjunnar Iceland Foods, hyggst ganga á tind Everest, hæsta fjalls í heimi, ásamt syni sínum, Richard Walker.
Feðgarnir hyggjast með þessu safna einni milljón punda fyrir góðgerðarsamtök Alzheimer Research UK.
David Hempleman-Adams mun stjórna leiðangrinum, en hann er þaulreyndur fjallagarpur. Lagt verður í hann 28. mars nk.
Walker segist hafa fengið þessa flugu í höfuðið eftir að hann flaug með þyrlu á Norðurpólinn, ásamt Adams, í fyrra.
„Við fórum að ræða um Everest. Þetta er líklega ein mesta áskorun sem til er á jörðinni. Margir hafa reynt að komast á tindinn en hafa beðið bana. Og ég áttaði mig á því að ég yrði að láta slag standa.“