Rannsóknaraðilar á vegum afgönsku ríkisstjórnarinnar hafa greint breska ríkisútvarpinu frá því að 65 saklausir borgarar, þar á meðal 50 konur og börn, hafi fallið í hernaðaraðgerðum NATO í Kunar-héraði í síðustu viku.
Talsmen fjölþjóðaliðsins, ISAF, segja hins vegar að bráðabirgðaniðurstöður bendi til þess að almennir borgarar hafi ekki látið lífið í aðgerðum hersveitanna. Aftur á móti hafi rúmlega 30 uppreisnarmenn látist í næturaðgerðunum.'
Héraðsstjórinn í Kunar sagði á sunnudag að saklaust fólk hefði látist í loftárásum NATO á afskekkta fjallabyggð.
Segir á vef breska ríkisútvarpsins að Afganar, allt frá forsetanum Hamid Karzai til almennra borgara, telji að aðgerðir NATO hafi leitt til þess að 20 konur og 29 börn hafi látið lífið. Þá hafi yfir tugur óvopnaðra karlmanna fallið.
NATO telur að enginn saklaus borgari hafi fallið í aðgerðunum í Kunar.