Þrjú Amish-börn drukknuðu

Hestvagn Amish-fólks
Hestvagn Amish-fólks

Þrjú Amish-börn drukknuðu og eins er saknað eftir að þau lentu í vatnsmiklum læk í suðvesturhluta Kentucky í Bandaríkjunum. Miklir vatnavextir eru á þessu svæði.

Slysið varð þegar hjón með sjö börn sín reyndu að fara yfir lækinn í gær í hestvagni. Vagninn valt í læknum og fjölskyldan lenti í vatninu. Hjónin og þrjú barnanna komust upp á bakkann en fjögur börn bárust með straumnum.

Lík þriggja barnanna fundust í morgun en 11 ára stúlku er enn saknað og er hennar leitað. Yngsta barnið, sem lést, var hálfs árs gamalt.  Um 100 lögreglumenn, slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar taka þátt í  leitinni.

Svonefnt Amish-fólk býr á afmörkuðum svæðum í Bandaríkjunum. Þar lifir það einangruðu lífi í þorpum og heldur fast í einkenni evrópskrar sveitamenningar frá 17. öld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert