Skriffinnar í Oxford-sýslu í Bretlandi hafa bannað börnum að notast við sundgleraugu í skólasundi. Er bannið rökstutt með því að gleraugun geti meitt börnin. Þurfa börnin nú að framvísa tilmælum frá lækni til að mega notast við gleraugun í sundi.
Fjallað er um málið á vef Daily Telegraph en þar segir að yfirvöld í Leicestersýslu hafi einnig bannað sundgleraugu.
Mun þá hafa verið vísað til þess að sundgleraugu væru „hættuleg“, þar sem þau gætu smollið harkalega í andlit barna, nú eða valdið því að þau rækjust á hvert annað í lauginni vegna þeirrar brengluðu sýnar sem notkun gleraugna orsaki.