Öryggisráðið fundar aftur um Líbíu

Ban Ki-moon, aðalritari SÞ.
Ban Ki-moon, aðalritari SÞ. Reuters

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda aftur í dag til að ræða refsiaðgerðir gegn Líbíu til að koma í veg fyrir að Muammar Gaddafi brjóti mótmælin þar í landi á bak aftur með frekara blóðbaði. Bretar, Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn hafa ályktað að árásir Gaddafi á almenna borgara geti flokkast sem glæpir gegn mannkyni.  Kallað er eftir vopnasölubanni sem og ferðabanni og að eignir Gaddafi og stjórnar hans verði frystar svo ekki verði hægt að koma þeim í skjól út fyrir landsteinana.

Búist er við að viðræður Öryggisráðsins verði harðar þar sem fjöldi landa hefur sett spurningamerki við refsiaðgerðirnar. Aðalritari SÞ, Ban Ki-moon, segir að yfir 1.000 manns hið minnsta hafi þegar látið lífið í átökunum. Áður hefur sendifulltrúi Líbíu hjá SÞ sagt að þúsundir manna hafi fallið.

Á fundi Öryggisráðsins í gær greindi Ban frá fréttum þess efnis að líbískir hermenn hefðu ráðist inn á sjúkrahús til að drepa særða stjórnarandstæðinga og að þeir hermenn sem neiti að skjóta á borgara séu drepnir.  „Fólk getur ekki farið út úr húsi af ótta við að vera sotið til bana af stjórnarliðum eða hernum," sagði Ban. „Það er kominn tími til að Öryggisráðið íhugi aðgerðir. Við þessar kringumstæður þýðir hver stund sem tapast að fleiri mannslíf tapist."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert