Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbíu, segist ekkert mark taka á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði þetta í viðtali við sjónvarpsstöð í Serbíu. Hann ítrekaði fyrri yfirlýsingar um að al-Qaeda bæri ábyrgð á mótmælunum í landinu.
„Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er í ósamræmi við stofnsáttmála samtakanna og því ekki marktæk,“ sagði Gaddafi í viðtalinu. „Hvernig getur öryggisráðið samþykkt ályktun sem er byggð á fréttum fjölmiðla. Það er ekki hægt að sætta sig við þetta og gengur gegn almennri skynsemi.“
Ályktun öryggisráðsins er um ferðabann og frystingu eigna Gaddafi og fjölskyldu hans og bann við sölu vopna til landsins. Í ályktunni er Mannréttindadómstólnum í Haag falið að rannsaka mannfallið í Líbíu, en fullyrt er að yfir þúsund manns hafi fallið í mótmælunum og draga eigi þá sem bera ábyrgð á mannfallinu til ábyrgðar.
Í viðtalinu hélt Gaddafi því fram að friður sé nú að komast á í Líbíu. Hann sagði að búið sé að umkringja þann fámenna hóp sem staðið hafi fyrir mótmælunum.