36 ára gömul bresk kona, sem afplánar nú fimmtán ára fangelsisdóm fyrir að hafa svelt 7 ára gamla dóttur sína til dauða, er sögð hafa bætt á sig tæplega hundrað og fimmtán kílóum í fangelsisvistinni.
Angela Gordon var fundin sek um að hafa orðið dóttur sinni, Kyhru Ishaq, að bana með því að neita henni um mat. Ishaq var einungis sextán kílógrömm þegar hún lést á heimili sínu í Birmingham í maímánuði árið 2008. Mörgum þykir þyngdaraukning móðurinnar móðgun við minningu stúlkunnar. Samkvæmt heimildarmanni dagblaðsins The Sun á Gordon ekki marga vini innan veggja fangelsisins.
Ishaq var barin með bambusstaf af móðurinni og stjúpföður og hún neydd til þess að standa í margar klukkustundir úti í nærfötunum einum. Stúlkan nærðist einungis á brauði nágrannans, sem ætlað var fuglum, því parið hafði læst eldhúsinu. Systkini hennar fimm fengu mat sinn í hundadöllum, en ef þau höguðu sér ekki var þeim alfarið neitað um mat.