Chávez og Gaddafi ræða frið

Hugo Chávez, forseti Venesúela, hefur verið náinn bandamaður Gaddafis í …
Hugo Chávez, forseti Venesúela, hefur verið náinn bandamaður Gaddafis í gegnum tíðina. Reuters

Hugo Chávez, forseti Venesúela og Moammar Gaddafi, forseti Líbíu funduðu í gær um hvernig miðla mætti málum á milli stríðandi fylkinga í Líbíu.

Forsetarnir tveir hafa löngum átt mikil samskipti og Chavez lagði til síðastliðinn mánudag að alþjóðlegt friðarnefnd yrði skipuð til að koma á friði í Líbíu og til að hindra að borgarastyrjöld brjótist út

Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, staðfesti í dag að verið væri að skoða tillögur Chávez. Stjórnvöld í Venesúela sögðu, að Gaddafi hefði fallist á tillögur Chávez og sjónvarpsstöðin Al Jazeera sagði, að Moussa hefði einnig fallist á þær. Moussa bar þetta hins vegar til baka í samtali við Reutersfréttastofuna.

„Við höfum fengið upplýsingar um áætlun Chávez en hún er enn til skoðunar," sagði Moussa. „Við ráðfærðum okkur við ýmsa leiðtoga í gær."

Chávez hefur lagt til, að fulltrúar nokkurra ríkja verði sendir til Líbíu til að reyna að miðla málum milli Gaddafis og uppreisnarmanna, sem eru nú sagðir undirbúa sókn til Tripoli, höfuðborg landsins. 

Chávez sakar Bandaríkjamenn um að gera mikið úr ástandinu í Líbíu og að hagræða sannleikanum, til þess að geta réttlætt innrás inn í landið.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert