Frá og með 11. apríl næstkomandi verður ólöglegt að klæðast búrkum og niqab í Frakklandi. Bannað verður að hylja andlit sitt á almanna færi og eingöngu verður leyfilegt að klæðast höfuðslæðunum inni á heimilinu, við trúarlegar athafnir í bænahúsum og í einkabifreiðum. Konur sem brjóta bannið verða sektaðar um 150 evrur en komi í ljós að þær hafi verið neyddar til þess af þriðja aðila, til dæmis eiginmanni, má sekta hann um 30 þúsund evrur og dæma í árs fangelsi.
Lögin hafa verið afar umdeild og forsetinn Nicolas Sarkozy, sem styður bannið, sakaður um að stíga í vænginn við stjórnmálaöflin yst til hægri. Hefur hann hvatt til umræðu um Íslam í Frakklandi og látið hafa eftir sér að honum hugnist hvorki að taka tillit til trúarskoðana í mötuneytum skóla né að leyfa bænir utanhúss.
Forsætisráðherra Frakklands, François Fillon, hefur ekki viljað taka eins djúpt í árina. Hann segir lögin snúast um almannaöryggi og kvennréttindi en ekki trúarskoðanir.
Gera má ráð fyrir að lögmæti laganna verði borin undir Mannréttindadómstól Evrópu.