Hnífamaður reyndi að ráðast á Mourinho

Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho.
Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho. Reuters

Maður vopnaður hnífi reyndi að ráðast á portúgalska knattspyrnustjórann Jose Mourinho, sem stýrir spænska knattspyrnuliðinu Real Madrid. Mourinho var að gefa eiginhandaráritanir á spænskum flugvelli í síðustu viku þegar maðurinn réðist til atlögu.

Athygli vekur að ekkert hafi verið greint frá þessum atburði fyrr en nú, en það var fréttastöðin Cadena Ser sem greindi fyrst frá málinu. Atvikið átti sér stað sl. föstudag á flugvellinum í La Coruna í Galisíu.

Fram kemur í fjölmiðlum að öryggisvörður á hafi hlotið fjögurra cm djúpt stungusár.

Breska ríkisútvarpið segir að það sé ekki ljóst hvort Mourinho hafi gert sér grein fyrir árásinni. Fram kemur í frétt Cadena Ser að öryggisvörðurinn hafi ekki áttað sig á því að hann hefði særst fyrr en hann var kominn um borð í liðsrútuna.

Líklegt þykir að öryggismyndavélar á flugvellinum hafi náð myndum af atvikinum.

Fréttastöðin segist hafa heimildir fyrir því að Real Madrid hafi eflt öryggisgæsluna fyrir næsta leik í spænsku deildinni, en liðið leikur gegn Racing Santander um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert