Þjóðarmorð yfirvofandi á Fílabeinsströnd

Gríðarleg reiði var meðal borgara á götum Abidjan á Fílabeinsströnd í dag eftir að öryggissveitir skutu sjö konur til bana í gær. Reiðir mótmælendur brenndu hjólbarða og sveifluðu prikum og hnífum á meðan kolsvartur reykurinn steig til himins.

Konurnar sem skotnar voru í gær höfðu safnast saman til skipulagðrar mótmælagöngu, þar sem krafist var afsagnar forsetans Laurent Gbagbo. „Mæður okkar fóru út til friðsællar mótmælagöngu með tómar hendur. Þá sáum við skriðdreka Gbagbo koma og þeir hófu skothríð á gömlu konurnar. Sex dóu á staðnum en sjö eru dánar allt í allt því önnur dó í sjúkrabílnum. Við erum tilbúin. Við getum ekki varið okkur svo við höfum útbúið sprengjum og nú bíðum við eftir Gbagbo og nú munum við binda endi á þetta,“ segir einn mótmælenda í viðtali við blaðamann Reuters.

Sameinuðu þjóðirnar lýsa yfir áhyggjum af þróun mála á Fílabeinsströnd og sendifulltrúi landsins hjá SÞ, Youssoufou Bamba, varar við því að þjóðarmorð sé yfirvofandi.  „Þeir eru að drepa fólk eftir uppruna. Þeir drepa fólk af öðrum þjóðernum, frá nágrannalöndunum. Þeir drepa fólk sem er á móti Gbagbo. Það er ekki ásættanlegt að í dag, á 21. öldinni.“

Nú þegar hafa a.m.k. 365 látið lífið í deilunum milli forsetaframbjóðendanna Gbagbo og Allasena Outtara sem báðir segjast hafa unnið kosningarnar í nóvember. Alþjóðasamfélagið hefur tekið stöðu með Outtara en Gbagbo neitar að víkja.  Óttast er að borgarastyrjöld sé að brjótast út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert