Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði í dag að árásir stjórnarhermanna í Líbíu á óbreytta borgara kunni að verða skilgreindar sem glæpir gegn mannkyninu.
„Þessar víðtæku og kerfisbundnu árásir á óbreytta borgara kunna að verða skilgreindar sem glæpir gegn mannkyninu," sagði Fogh Rasmussen á blaðamannafundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel.
Hann sagði, að hin svívirðilegu viðbrögð Muammars Gaddafis, einræðisherra Líbíu við mótmælaaðgerðum í landinu hefðu valdið hörmungum sem kæmu öllum við.
Sagðist Fogh Rasmussen ekki geta ímyndað sér, að alþjóðasamfélagið og Sameinuðu þjóðirnar muni sitja með hendur í skauti ef Gaddafi og stjórn hans haldi áfram að ráðast á eigin þjóð með kerfisbundnum hætti.