Íhuga hernaðaraðgerðir í Líbíu

Barack Obama Bandaríkjaforseti varaði í dag þá sem taka stöðu með Muammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, við því að Nató íhugi að grípa til hernaðaraðgerða til að bregðast við versnandi ástandi í landinu.

„Ég vil senda mjög skilaboð til allra þeirra sem styðja við bakið á Gaddafi, að það er undir þeim sjálfum komið hvernig þeir haga næstu skrefum. Og þeir verða látnir sæta ábyrgð fyrir hvers kyns ofbeldi sem heldur áfram að eiga sér stað þar. Í millitíðinni er Nató, í þessum töluðu orðum, að ráðfæra sig í Brussel um hugsanlegar víðfeðmar aðgerðir, þar á meðal hernaðarlegar."

Í Líbíu takast hersveitir ríkisstjórnarinnar og uppreisnarmanna á um yfirráð yfir landinu í blóðugum bardögum. Ekki hefur ríkt einhugur í alþjóðasamfélaginu um hvort hernaðarleg afskipti séu réttlætanleg. Bretar og Frakkar eru sammála um að setja eigi flugbann yfir Líbíu til að koma í veg fyrir loftárásir Gaddafi á þjóð sína og hyggjast leggja slíka tillögu fyrir Öryggisráð SÞ í vikunni. Arabaríkin við Persaflóa hafa lýst yfir stuðningi sínum við slíkt bann.

Rússar lýstu því hinsvegar yfir í dag að þeir væru mótfallnir hvers konar hernaðaríhlutun í Líbíu. Rússneski utanríkisráðherrann, Sergei Lavrov, sagðist ekki telja það neina lausn á vandanum að grípa inn í, líbíska þjóðin þyrfti sjálf að fá að leiða málið til lykta. Bandaríkjamenn samþykkja að það sé ótímabært að afhenda líbískum stjórnarandstæðingum  vopn.  Bandaríkjaher hefur lagt á ráðinn um hernað á landi, frá sjó og lofti í Líbíu ef til þess komi að hernaðaríhlutun verði samþykkt. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, segir hinsvegar að samþykki alþjóðasamfélagsins verði að liggja fyrir áður en gripið verði til vopna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka