Átök milli múslíma og kristinna í Kaíró

Messa kristinna mann í Egyptalandi til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar …
Messa kristinna mann í Egyptalandi til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar þann 1. janúar 2011. Reuters

Að minnsta kosti einn maður er látinn eftir blóðug átök sem brutust út milli kristinna manna og múslima í Kaíró í Egyptalandi í kvöld. Fyrstu heimildir herma að sá látni sé kristinn.

Ofbeldið braust út þegar meðlimir koptakirkjunnar, hinnar fornu þjóðkirkju Egyptalands, mótmæltu íkveikju í kirkju í suðurhluta landsins í síðustu viku. BBC hefur eftir vitnum að herinn hafi skotið varúðarskotum út í loftið til að dreifa múgnum.

Mikil spenna hefur verið milli trúarhópa í landinu undanfarið. Rúmir tveir mánuðir eru liðnir síðan sjálfsmorðsárás var framin við kirkju í Alexandríu með þeim afleiðingum að 23 kristnir menn létu lífið. Kristnir menn eru um 10% egypsku þjóðarinnar. Þeir hafa margsinnis kvartað undan áreitni og ofsóknum vegna trúar sínar og halda því fram að yfirvöld refsi vægt eða alls ekki fyrir árásir á kristna menn.

Í janúar var Egypti dæmdur til dauða fyrir að skjóta til bana sex kristna menn og múslímskan lögreglumann í suðurhluta landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert