Bátaeigendum við höfnina í Redondo Beach í Kaliforníu brá nokkuð við þá sjón sem blasti við þeim í birtingu í morgun, og ekki síður við lyktina sem henni fylgdi. Milljónir á milljónir ofan af dauðum sardínum flutu í höfninni.
Á loftmyndum má sjá hvernig sjórinn í höfninni er litaður silfruðum sardínum umhverfis bátana. Íbúar hafa brotið heilann um dauða fiskanna í dag en sú kenning hefur verið sett fram að of mikið af fiskum hafi safnast saman á of litlu svæði með þeim afleiðingum að allt súrefni kláraðist í vatninu og fiskarnir köfnuðu. Lögregla fer þó enn með rannsókn málsins.
Í millitíðinni er unnið að hreinsunarstarfi í höfninni, ekki síst til að útrýma stækri rotnunarlyktinni sem liggur í loftinu.