Tveir unglingar, sem börðu mann til bana meðan á hátíðahöldum vegna Íslendingadagsins í Gimli í Kanada stóð fyrir rúmum tveimur árum, sleppa með eins dags fangelsisdóm og þriggja ára skilorð.
Varð þetta að samkomulagi milli verjenda unglinganna og saksóknara.
Piltarnir, sem nú eru 19 ára, höfðu áður játað á sig sakir fyrir manndráp. Saksóknara tókst hins vegar ekki að sanna hvort högg hefðu orðið manninum að bana eða hvort hann hefði látist þegar hann féll og rak höfuðið í gangstétt. Þá bar frásögnum vitna af atburðinum ekki saman. Ákærur á hendur þremur öðrum piltum voru felldar niður.
Að sögn blaðsins Toronto Sun hafði piltahópurinn lent í útistöðum við hátíðargesti fyrr um nóttina. Piltarnir voru síðan á gangi fyrir aftan Martyn Hendy, sem var 29 ára. Til orðaskaks kom en þegar Hendy snéri sér ógnandi við réðust piltarnir á hann, börðu hann og spörkuðu í hann. Að sögn saksóknara var Hendy of drukkinn til að verja sig.
Blaðið hefur eftir Ray Wyant, dómara, að erfitt væri að sanna sakargiftir. Þarna hefði verið á ferð hópur drukkinna ungmenna sem voru með mannalæti og fyrirgang og afleiðingarnar hefðu verið alvarlegar Hann sæi hins vegar ekki ástæðu til að hverfa frá samkomulaginu, sem gert var.
Dómarinn sagði, að margir kynnu að telja að unglingarnir hefðu sloppið vel. Hann sagðist hins vegar vona að þeir muni nú helga líf sitt minningu Hendys.
Fram kemur í frásögn blaðsins, að annar piltanna er efnilegur íþróttamaður sem stefni á keppni á ólympíuleikum.