Jarðskjálfti, sem mældist 7,3 stig, varð í nótt við Japan. Upptök skjálftans voru um 160 km undan strönd eyjarinnar Honshu. Skjálftinn fannst vel í Tókýó. Flóðbylgja fylgdi í kjölfarið en var aðeins um 60 sentimetra há og olli engum skemmdum frekar en skjálftinn.
Hraðlestar stöðvuðust vegna skjálftans en héldu fljótlega af stað aftur. Engar truflanir urðu á starfsemi kjarnorkuvera.
Þegar jarðskjálftinn reið yfir rufu sjónvarpsstöðvar dagskrá sína til að birta upplýsingar um skjálftann og væntanlega flóðbylgju. Fljótt varð ljóst að ekkert tjón hafði orðið.
Jarðskjálftar eru tíðir enda er Japan á mótum meginlandsfleka.