Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri konur víðsvegar að úr Evrópu sótt Danmörku heim í því skyni að gangast undir tæknifrjóvgun. Oftast er um að ræða konur, sem ekki eiga kosta á slíkri meðferð í heimalandi sínu.
Á síðustu fimm árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara sem fá tæknifrjóvgunarmeðferð í Danmörku fimmfaldast. Þessi fjölgun er fyrst og fremst rakin til þess að lög um tæknifrjóvganir eru talsvert frjálslegri þar í landi en víðast hvar annars staðar.
Þetta kemur fram í frétt á vef danska dagblaðsins Politiken.
Frá árinu 2007 hafa einhleypar og samkynhneigðar konur átt kost á tæknifrjóvgun í Danmörku og á sama tíma hafa mörg Evrópuríki lögfest reglugerðir um að sæðisgjafar megi ekki vera nafnlausir.
Það hefur gert það að verkum að skortur er á sæðisgjöfum í mörgum Evrópulöndum.