Anders Mathisen, þingmaður á Samaþinginu í Noregi, þar sem gætt er að réttindum Sama, neitar því að helför nasista á hendur gyðingum í heimsstyrjöldinni síðari hafi átt sér stað.
„Ég veit að þetta gerðist ekki,“ segir Mathisen á Facebook síðu sinni um helförina og nefnir fullyrðingu sinni til stuðnings að hann hafi lesið fjölda bóka og gagna sem styðji þessa skoðun.
„Það eru ekki til neinar sannanir fyrir því að gasklefar og fjöldagrafir hafi nokkru sinni verið til,“ segir Mathisen í samtali við norska dagblaðið Aftenposten.
„Ég er ekki tilbúinn til að samþykkja það sem stendur í sögubókunum, ég rannsaka hlutina sjálfur. Ég fer fram á að mannkynssögubókum verði breytt, þannig að þær segi sannleikann,“
Mathiesen er í Verkamannaflokknum og forsvarsmenn flokksins segja málflutning hans í engu samræmi við stefnu flokksins. Verið sé að ræða málið innan forystu flokksins.