Rústir og eyðilegging

Rústir og eyðilegging blasa hvarvetna við í Japan eftir að stærsti jarðskjálfti sem sögur fara af þar í landi brast í morgun. Japanskar sjónvarpsstöðvar sýna myndir af eyðileggingunni sem skjálftinn olli.

Japanskar sjónvarpsstöðvar sýna myndir af hrikalegum afleiðingum jarðskjálftans, en hann er sá stærsti síðan skráningar jarðskjálfta hófust. 

Jarðskjálftinn var harðastur á norðausturströnd landsins og olli hann tíu metra hárri flóðbylgju, hafnarbylgju, sem þegar hefur valdið dauða hundruða manna og sópað í burtu öllu sem í vegi hennar varð.

Eyðileggingin er svo mikil og útbreidd að óttast er að fjöldi látinna geti vaxið verulega mikið. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út víðast hvar við Kyrrahaf. Viðvaranir voru afturkallaðar á nokkrum stöðum, meðal annars í Tævan, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Sumir íbúar í nágrenni við kjarnorkuver voru beðnir að yfirgefa heimili sín en stjórnvöld sögðu að geislavirk efni hafi ekki lekið út.  Þau sögðu að rýming húsanna væri varúðarráðstöfun eftir að bilun varð í kælikerfi kjarnakljúfsins.

Jarðskjálftinn er sá sterkasti sem orðið hefur frá því að skráning jarðskjálfta byrjaði í Japan fyrir 140 árum. Í kjölfar hans kviknuðu að minnsta kosti eldar á 80 stöðum í borgum og bæjum við ströndina.

Skip sem flutti 100 manns sópaðist í burtu. Enn er saknað heillar járnbrautalestar. Jarðskjálftinn er sá fimmti öflugasti sem orðið hefur í heiminum  á þessari öld og þeirri síðustu þar á undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert