Björgunarlið streyma til Japan

Svisslendingar eru í hópi þeirra sem sent hafa björgunarsveitir til …
Svisslendingar eru í hópi þeirra sem sent hafa björgunarsveitir til Japans. Reuters

Alþjóðlegar leitar- og björgunarsveitir komu til Japan í dag. Hérað í Afganistan, sem er á meðal þeirra stríðshrjáðustu þar í landi, gaf 50.000 dollara (5,9 milljónir ÍKR) til hjálparstarfsins.

Japönsk björgunarsveit, sem í eru 66 liðsmenn, hefur verið undanfarnar tvær vikur við leit og björgun í Nýja Sjálandi eftir stóra jarðskjálftann sem lagði Christchurch í rúst að hluta. Sveitin var í dag að pakka föggum sínum og undirbúa skjóta heimför.

Nýsjálendingar, sem sjálfir hafa átt um sárt að binda vegna stórs jarðskjálfta, ætla að senda 48 leitar- og björgunarmenn á jarðskjálftasvæðin í Japan. Það er þriðjungur slíkra sveita á Nýja Sjálandi.

Bandaríkin voru að senda 150 manna björgunarlið. Þeirra á meðal er hópur frá Los Angeles sem sneri heim frá Nýja Sjálandi fyrir tveimur dögum. Bandarísk þróunar stofnun ætlaði að senda tvö 72 manna teymi , leitarhunda og um 75 tonn af björgunarbúnaði.

Ástralía, Suður-Kórea og Singapore ætla að senda leitarhunda og sérhæft leitar- og björgunarlið. Einnig ætla Bretar að senda sérþjálfaða leitar- og björgunarmenn til Japan.

Fjöldi ríkisstjórna hefur boðið fram hjálp sína og margir þekktir einstaklingar, allt frá Elísabetu II Englandsdrottningu til Dalai Lama trúarleiðtoga og stjörnunnar Lady Gaga, hafa hvatt til samstöðu með japönsku þjóðinni á örlagatímum.  

Kínverski Rauði krossinn hefur heitið að gefa japanska Rauða krossinum eina milljón yuan (17,6 milljónir ÍKR).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert