Japanar reyndu í nótt að koma í veg fyrir kjarnorkuslys í tveimur kjarnorkuverum þar þar sem kælibúnaður brást í kjölfar jarðskjálftans mikla, sem reið yfir landið í gærmorgun.
Þúsund sinnum meiri geislavirkni en venjulega mældist í stjórnklefa annars versins en stjórnvöld sögðu, að geislavirkni utan við verið væri aðeins 8 sinnum meiri en venjulega.
Raforkufyrirtækið, sem rekur kjarnorkuverin, sagði að litlu magni af geislavirkri gufu hefði verið hleypt út úr verunum tveimur til að draga úr þrýstingi. Fullyrt var hins vegar að það hefði ekki í för með sér hættu fyrir heilsufar manna.
Vaxandi áhyggjur eru vegna ástands kjarnorkuveranna, sem bæði eru í Fukushimahéraði um 250 kílómetra norður af miðborg Tókýó. Þar búa um 30 milljónir manna.
Íbúar á svæði í allt að 10 km fjarlægð frá öðru veranna hafa verið fluttir á brott. Einnig hefur íbúum í allt að 3 km fjarlægð frá hinu verinu verið skipað að yfirgefa hús sín.
Japönsk kjarnorkuver eru hönnuð þannig, að raforkuframleiðsla stöðvast þegar jarðskjálfti ríður yfir. Það gerðist í verunum tveimur strax og skjálftinn varð í gærmorgun. en kælikerfi veranna biluðu.