Loftárásir á uppreisnarmenn

Líbískar hersveitir knúðu í nótt uppreisnarmenn til að hörfa frá útjaðri olíuborgarinnar Ras Lanuf. Víglínan, þar sem hart er barist, færðist austur eftir Líbíu.

Borgin Ras Lanuf er tæpa 600 km austur af höfuðborginni Tripoli. Uppreisnarmennirnir eru aðallega vopnaðir loftvarnabyssum, byssum gegn skriðdrekum og eldflaugasprengjuvörpum börðust af hörku við að halda Ras Lanuf. Þeir voru þó ofurliði bornir af hersveitum hliðhollum Muammar Gaddafi Líbíuleiðtoga. 

Hersveitir Gaddafis tóku einnig bæinn Bin Jawad, sem er um 530 km austur af Tripoli, eftir að uppreisnarmenn höfðu hörfað þangað.  Leiðtogi þjóðarráðs Líbíu, Mustafa Abdel Jalil, segir að margir séu til í að ráðast á stjórnarherinn. Hann bað alþjóðasamfélagið að setja hindranir við notkun skipa og flugvéla.

„Tilgangurinn er enn persónulegur, hann er ekki að gera það sem er gott fyrir landið og við eigum enn eftir að sjá einhverja niðurstöðu. Ef ekki verður sett flugbann og takmarkanir við umferð á hafinu þá verður ástandið verra fyrir almenna borgara,“ sagði Mustafa Abdel Jalil, leiðtogi Þjóðarráðs Líbíu. 

Bandaríkin styrktu hernaðarmátt sinn úti fyrir ströndum Líbíu í dag og fóru kjarnorkukafbátur og tundurspillir um Súezskurð inn í Miðjarðarhaf. Styrking flotans kemur í kjölfar vangaveltna um að sett verði bann við flugumferð yfir Líbíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert